Um okkur

Okkar saga

Ef þú hefur rekist á þessa heimasíðu, eru góðar líkur á að þú hafir áhuga á bátum eða eigir jafnvel slíkan grip, og ég vil bjóða þig velkominn í þessa litlu netverslun sem ég hleypti af stokkunum árið 2015.

Ég heiti Sigurður Jóhannesson – auðvitað kallaður Siggi – og er nýfluttur heim til Íslands eftir margra ára búsetu erlendis, aðallega í Englandi.  Þó ég sé flugvirki og hafi starfað í þeim geira lengst af, hef ég alltaf haft áhuga á bátum og sjávarútvegi, og hef verið svo lánsamur að eiga nokkra báta í gegnum ævina.

Þegar ég flutti heim á Frón árið 2014 , gat ég ómögulega skilið bátinn minn eftir þar, svo hann fékk að fljóta með búslóðinni.  Þetta var bátur sem ég var nýbúinn að kaupa;  hann var búinn að vera í niðurníðslu í nokkurn tíma svo ég ákvað að koma með hann og gera hann upp hérna heima.  Samhliða þessu fannst mér upplagt að skoða þann möguleika að gera tilraun til að auka framboð af bátavörum og bjóða upp á fleiri valkosti, og þessi litla netverslun er mín viðleitni til þess.

Boðið er upp á bæði nýja og notaða hluti.  Sumir hafa verið keyptir í gegnum árin  í þeim tilgangi að nota þá við eigin framkvæmdir sem hafa svo kannski tekið aðra stefnu og hluturinn aldrei notaður.  Ég hef alltaf verið óduglegar að losa mig við aukadót og þannig hefur safnast saman töluverður lager, en auðvitað eru líka partar sem hafa verið keyptir af því ég stend í þeirri trú að aðrir bátaeigendur gætu haft áhuga á og gagn af.

Þar sem flestir  bátaeigendur (eins og ég) þurfa að standa straum af sínum hobbí kostnaði með venjulegu “brauðstriti” legg ég áherslu á hagstæð verð – sem og góða og sveigjanlega þjónustu.  Ég er hvorki með fólk í vinnu eða dýrar hallir undir starfsemina, svo yfirbygging fyrirtækisins er í lágmarki, sem hjálpar að halda verðum niðri.  Einnig er ég líka frekar latur að kanna hvað mögulegir keppinautar mínir á þessum þrönga markaði eru að selja sínar vörur á.  Mín fílósófía er einfaldlega sú að miða söluverðið við mitt innkaupsverð og áfallinn kostnað og að eiga fyrir salti í grautinn um leið.  Þannig að ef ég næ hagstæðum innkaupum, þá nýtur fólk góðs af því, og ef ekki – ja þá er bara að læra af reynslunni og gera betur næst.

En nóg um það – þetta er orðin allt of löng lesning.  Skoðaðu þig um, endilega hafðu samband ef þú sérð eitthvað áhugavert og líka bara ef þig vantar meiri upplýsingar.  

Ég geri mitt besta að uppfæra kerfið til að vera ekki að sýna vörur sem eru uppseldar, en þrátt fyrir góða viðleitni er mögulegt að eitthvað detti framhjá.  Í þeim tilfellum hef ég samstundis samband við kaupanda til að ræða málin.  Svo hlakka ég til farsæls samstarfs og þakka fyrir þolinmæðina við þessa lesningu!

Með bestu kveðju,

Siggi