FRÓÐLEIKUR

Fróðleikur og góð ráð

Hér munum við safna ýmsum fróðleik sem og gömlum og góðum ráðum en þau eru ekki hvað síðst hagnýt enn þann dagin í dag. Ráðum um allt og ekkert er varðar báta

ÝMIS FRÓÐLEIKUR

Lensidælur - val og umhirða
Write By: adminSkrifað þann: 9 Mar 2020

Image result for bilge pump

Lensidæla er vatnsdæla sem notuð er til að fjarlægja sjó eða vatn sem getur safnast fyrir í kjölnum vegna ágjafar, úrkomu eða leka. Þá eru gjarnan minni dælur notaðar til að halda bátnum þurrum og stærri dælur fyrir neyðartilfelli. Það eru til margar gerðir af lensidælum en algengastar eru rafmagnsknúnar miðflóttaaflsdælur í smærri og meðalstórum bátum. Lensidælur eru oft tengdar flotrofa sem kveikir á dælunni þegar kjölvatn er komið upp að ákveðnu marki. Einnig er hægt að fá dælur þar sem flotrofinn er innbyggður í dæluna. Þar sem lensidælur verða seint taldar með áræðanlegri græjum um borð, er oft ráðlegt að hafa fleiri en eina lensidælu. Þá er gott að hafa dælu með flotrofa neðst í kjölnum til að halda bátnum þurrum. Notið litla (600-1100 GPH) dælu með sem grennstum barka, því þegar flotrofinn stöðvar dæluna, tæmir barkinn sig og rennur það vatn aftur niður í bátinn. Þá hækkar yfirborðið aftur og flotrofinn setur dæluna af stað aftur. Þetta getur svo orsakað keðjuverkun sem veldur því að dælan er stöðugt að fara í gang og dæla sama vatninu út aftur og aftur og getur því tæmt rafgeyminn á tiltölulega stuttum tíma. Því er mikilvægt að nota sem grennstan og stystan barka sem heldur sem minnstu vatni. Síðan er mikilvægt að hafa stærri og afkastameiri lensidælu(r) fyrir neyðartilvik og þá má segja að því stærra, því betra, s.s. 3000-5000 gph.

Image result for bilge pump

Stærð eða afköst lensidælna er mæld í hvað þær geta dælt mörgum gallonum á klukkustund (gallons per hour – gph) Helstu stærðir á rafmagnsdælum fyrir minni og meðalstóra báta eru á bilinu 600 til 5000 gph. Algengur misskilningur er, að því minni sem bátar eru, því minni lensidælur komist þeir af með, en haft skyldi í huga að því minni sem báturinn er að rúmmáli, því fljótari er hann að fyllast af sjó eða vatni. Annað sem hafa skal í huga, er að uppgefin afköst eru miðuð við kjöraðstæður, sem sjaldnast eru raunhæf, svo sem að lyftihæð sé engin, rafgeymir sé að framleiða minnsta kosti 12.7 volt – eða 25.4 volt í 24 volta kerfi og ekkert spennufall í raflögnum. Einnig að engin mótstaða sé í börkum og inntökum og ekkert rusl eða aðskotahlutir í kjölvatninu. Nokkuð augljóst að ekkert af þessu á við um dælu í venjulegum bát, svo það er oft sagt að við raunverulegar aðstæður má gera ráð fyrir að dæla sé að ná hálfum afköstum miðað við það sem upp er gefið af framleiðanda, og þá skiptir ekki öllu máli hver hann er eða hve dýr dælan er. Rule er t.d. ekkert að standa sig betur í þessu en hver annar.

Þegar ný lensidæla er sett í bát, er gott að hafa nokkra hluti í huga. Festu dæluna tryggilega í bátinn – stundum þarf að líma eða trefjaplasta smá platta í botninn úr efni sem gott er að skrúfa í. Reyndu að hafa sem minnstar beygjur og sveigjur á börkum, því það eykur viðnámið og minnkar afköstin. Hafðu úttakið nógu hátt til að sé engin möguleiki að sjór komist þar inn. Passaðu að hafa rafmagnskapla nógu stóra til að koma í veg fyrir spennufall. Skoðaðu hvað dælan er að taka mikinn straum í amperum og hvað lögnin er löng frá rafmagnstöflunni eða rafgeyminum.  Það er fullt af reiknivélum fyrir svona dæmi á netinu. Ef í vafa, notaðu sverari víra en grennri. Ef spennufall fer mikið yfir 3% geta rafmagnsmótorar ofhitnað og eyðilagst, fyrir utan að afköstin minnka. Það er slæmur ósiður að tengja rafmagnstæki beint við rafgeyma, frekar en að fara í gegnum töflur með tilheyrandi yfirálags útsláttaröryggjum en lensidælur eru kannski undantekningin, sérstaklega þar sem þær eru með flotrofa og sjá um að halda bátnum þurrum. Þó skyldi alltaf hafa útsláttaröryggi í raflögninni og staðsetja það sem næst geyminum. Passið að miða stærð öryggisins við uppgefin amper á dælunni – farið í næstu stærð fyrir ofan. Því miður koma flestar lensidælur með frekar stuttum vírendum og því þarf að splæsa við raflögnina. Reynið að ganga vel frá þessu og ekki hafa þessa tengingu það lága að kjölvatnið nái upp í hana áður en dælan fer í gang (ef flotrofi er notaður)

Rétt er að taka fram að það er alltaf góð hugmynd að hafa handvirka dælu um borð ef rafmagnið klikkar og reyndar er það skylda um borð í bátnum sem eru yfir 6 metra langir.

Lensidælur geta enst í mörg ár ef þær fá smá umönnun. Flestar dælur eru þannig að það er lítið mál að smella dæluhúsinu frá inntakinu (sem er þá fest í bátinn) til að hreinsa það. Einnig skoða rafmagnstengingar því spanskræna þar eykur mótstöðu sem veldur spennufalli sem getur eyðilagt mótorinn. En lang algengasta banamein lensidælna er skítur eða aðskotahlutir í kjölvatninu og það þarf ekki stóran slíkan til að stífla dæluna og stöðva dæluhjólið og ef að ekki slær út mjög fljótt, brennur mótorinn yfir og dælan er þá ónýt. Svo smá hreinlæti eykur ekki bara almenna ánægju um borð, það hjálpar lensidælunum þinum að lifa löngu og góðu lífi, halda bátnum þínum þurrum og vonandi ofansjávar í neyðartilvikum, og er það ekki aðalmálið?

Þetta er bara fljótleg samantekt um lensidælur, en það er hafsjór af fróðleik á netinu og hér er linkur í mjög góða og ítarlega grein á ensku

https://seagrant.uaf.edu/bookstore/boatkeeper/bilge-pumps.pdf

Utanborðsmótorar - val og umhirða
outboards-008

Það eru nokkur grundvallaratriði sem gott er að hafa í huga þegar verið er að velja sér utanborðsmótor.  Þetta greinarkorn fjallar um litla mótora sem sem eru notaðir á litla báta, bæði plast og trébáta og gúmmíbáta.  Helstu þættir eru tegund, stærð – bæði í hp og lengd á legg, þyngd og hvort þeir eru tvígengis eða fjórgengis.  Við skulum skoða hvern þátt aðeins nánar.

Uppruni og tegundir:

Flestir hafa sína eigin skoðun á tegundum og eiga jafnvel sína “uppáhalds” – hvort sem kemur að bílum, mótorhjólum, sleðum eða bara tækjum yfirleitt og þessi grein er ekki ætluð til að gera upp á milli hinna og þessa framleiðandanna. 

Fyrstu tilraunir að framleiða utanborðsmótora voru gerðar í kringum 1900 í USA og það var hinn norsk-ættaði Ole Evinrude sem smíðaði fyrsta fjöldaframleidda motorinn árið 1909 og lengi fram eftir síðustu öld voru Bandríkjamenn langfremstir í hönnun og smíði á utanborðsmótorum og það má segja að OMC (Outboard Motor Corporation) sem framleiddi Evinrude og Johnson mótora hafi meira og minna átt þennan markað (ásamt Mercury) fram undir 1970.  En upp úr því varð þróunin svipuð og með flest önnur vélknúin farartæki – Japanir hófu framleiðslu og fljótt kom í ljós að þeirra vörur stóðust fyllilega samanburð og þeirra markaðshlutdeild óx hröðum skrefum.

Flest japönsku fyrirtækin sem höfu hafið mótorhjólaframleiðslu eftir seinni heimstyrjöld fóru út í framleiðslu á utanborðsmótorum og byggðu þannig á áratuga reynslu í hönnun og smiði lítilla bensínvéla.  Til að byrja með voru flestir utanborðsmótorar með tvígengisvélar en það var Honda sem var brautryðjandi í hönnun og smíði lítilla fjórgengis mótora.  Eins og svo margir á mínu reki, átti ég Hondu 50 skellinöðru 1974 sem var þá komin með vandaðann fjórgengismótor, á meðan Súkkurnar og Yammarnir voru enn í bláum tvígengis reykskýjum.  Fljótlega fylgdu svo hinir fordæmi Honda og snéru sér að fjórgengismótorum, en að öllum öðrum ólöstuðum, held ég að það sé Honda sem er guðfaðir litla fjórgengismótorsins og það verður að segjast að þeirra mótorar hafa eitthvað sérstakt sem hinum hefur gengið illa að bæta frekar.  Það eru helst Yamaha, Suzuki og nú seinni árin – Tohatsu, sem hafa veitt þeim samkeppni og í dag er sennilega lítill munur á, hvað varðar gæði og gangöryggi.  Þessir stóru framleiðendur eyða gríðarlegum fjárhæðum í rannsóknir og hönnun sem svo skilar sér í betri vöru til okkar neytenda.  Hlutfall bandarískra framleiðanda hefur minnkað töluvert og nú framleiða þeir aðallega fyrir sinn eiginn heimamarkað – sem að er nú nokkuð stór í öllu falli.  Reyndar hefur Evinrude verið brautryðjandi í nýrri hönnun tvígengismótora, en þá aðallega í stærri gerðunum.  Mercury og Mariner eru líka vel þekktar tegundir hér á landi.

Síðustu árin hefur svo skotið upp nýjum tegundum, aðallega frá Kína og Kóreu.  Þeir eru yfirleitt á lægri verðum en japönsku mótorarnir og oft framleiddir eftir eldri hönnunum frá Japan.  Þar sem ég hef alltaf haldið mig við merki sem ég þekki af eigin reynslu (er búinn að eiga marga mótora og mótorhjól um ævina) get ég ekki fullyrt neitt um gæði og þessara mótora.  Eflaust eru þeir nothæfir til síns brúks en kannski ekki komin nægileg reynsla til á láta á reyna með endingu.

 

Stærð á mótor

a)  Hestöfl – mælieining sem allir kannast við.  Fer fyrst og fremst eftir stærð og þyngd báts, tegund kjalar (planari eða hefðbundin) og aðstæður sem nota á bátinn við.  Litlir plast- og uppblásanlegir gúmmíbátar (2-4 metrar á lengd) komast vel af með mjög litla mótora við góðar aðstæður, en hér eru það aðstæðurnar sem skipta höfuðmáli.  2-4 hp mótor væri upplagður á lygnu stöðuvatni, en ef þú ferð út á sjó, þarftu að fást við strauma, oftast ókyrrara yfirborð og mögulega haf- eða landgolu – jafnvel alla þessa þætti sameinaða, þar sem 5-8 hp mótor væri mun öruggari.  Svo eykst hestaflaþörfin til muna, sé báturinn planari.  Flestir bátar koma með upplýsingum um æskilega stærð utanborðsmótors.  Gott er að styðjast við þetta og fara allavega ekki mikið yfir mörkin, þó ég hafi nú gert “tilraunir” í þessum málum.

b) Lengd á legg.  Það er mikilvægt að lengdin á skrúfuleggnum hæfi kjaldýpt bátsins.  Sérstaklega þarf að passa að inntak kælivatnsins sé vel í kafi og komi alls ekki upp á yfirborðið, jafnvel í einhverjum öldugangi.  Einnig þarf skrúfan að vera vel fyrir neðan yfirborð að öllu jöfnu, þó ekki sé nú jafn mikilvægt að hún sé eins vel á kafi og inntakið.  Ef skrúfan ef of nálægt yfirborðinu minnkar nýtnin til muna og hún fer að draga með sér loftbólur niður fyrir yfirborðið – kallað “cavitation” á frummálinu.  Ef leggur er of langur, eru helstu ókostirnir aukið drag (mótstaða) og meiri hætta að hæll eða skrúfa taki niðri.  Einnig kemur meira vogarstangarafl á mótorinn, sem getur reist minni báta upp að framan og eykur álag á bæði mótor og bát.  Best er að “caviation” platan sem er fyrir ofan skrúfuna sé nokkurnveginn í hæð við kjöl bátsins.  Standard lengdir á litlum utanborðsmótorum eru yfirleitt mældar í tommum, og er talað um 15″ legg sem stuttan, og 20″ legg sem langan.  Það eru til 25″ mótorar sem gjarnan eru notaðir sem hjálpar- og/eða varamótorar á stærri báta eða skútur en einnig er hægt að nota mótora með styttri leggjum ef mótorinn er með bátfestingu sem auðveldlega er hægt að stilla hæðina á.

c) Þyngd á mótor.  Yfirleitt í nokkuð réttu hlutfalli við hestaflatölu og skiftir mestu máli ef menn eru oft að handlanga mótorinn, setja hann á eða taka af – svo sem á gúmmíbátum.  Yfirleitt eru fjórgengismótorar þyngri en tvígengis – þó er minnsti Honda BF2.3 fjórgengismótorinn ekki nema 13 kg.  Auðvitað fer þetta eftir hreysti hvers og eins, en það má segja að mótorar undir 20 kg séu auðveldir í meðförum fyrir einn mann.  Eftir það fer að síga í og þó að flestir mótorar séu með burðarhandföngum, er eðli þeirra afskaplega óliðlegt – þyngdarpunkturinn er mjög ofarlega og enginn flötur neðst til að gefa þeim stöðugleika þegar maður þarf að leggja þá frá sér.  En þetta venst.  Eins og með hestaflatölur, eru flestir bátar með upplýsingum um mestu leyfilegu þyngd á mótor.

 

Fjórgengis eða tvígengis.

Síðustu ár hefir þróunin verið í fjórgengismótorum, sem er sennilega afleiðing af EU banni við sölu nýrra tvígengismótora fyrir skemmtibáta (leisure use) síðan 1. jan 2007 – vegna mengunar.  Reyndar hefur Evinrude þróað nýja tækni í tvígengismótorum sem uppfyllir mengunarkröfur, en þá aðallega í stærri gerðum.  Sumir harma þessa þróun og vilja meina að þrátt fyrir meiri mengun og hávaða séu gömlu tústrókerarnir að mörgu leiti hentugri vélar í utanborðsmótora.  Eitt er nokkuð víst að þeir eru léttari en fjórgengis bræður þeirra og skila fleiri hestöflum miðað við þyngd – þar sem þeir sprengja í hverju slagi og þeir eru léttari að toga í gang þar sem þjappan er minni.  Einnig eru þeir ekki eins viðkvæmir í umgengni og þar sem engin smurolía er í sveifarhúsinu, má leggja þá frá sér nokkurnveginn á hvaða veg sem er.  Helstu ókostir þeirra eru meiri mengun -þar sem bruninn er ófullkomnari – og að á minni mótorum þarf að blanda smurolíunni í bensínið (stærri mótorar gera þetta oft sjálfvirkt).  Svo eru tvígengisvélar yfirleitt ekki hrifnar að ganga hægagang langtímum saman og vilja sóta sig undir slíkum kringumstæðum, svo henta ekki til að “trolla” við veiðiskap.  En vel stilltur tvígengismótor getur verið afskaplega ljúfur og þægilegur í notkun og umgengni.  Þú getur sennilega getið þér til um að mér er enn afskaplega hlýtt til þeirra 🙂

En auðvitað eru forstrókerarnir að ná yfirhöndinni og það er svosem bara af hinu góða.  Þeir eru umhverfisvænni og þarf ekki að standa í neinu blöndunarveseni.  Þeir eru með jafnari gang og líður vel í hægagangi – jafnvel tímunum saman.  Fjórgengismótorar eru nýtnari á eldsneyti svo eyða minna bensíni og þú þarft ekki að kaupa dýra tvígengisolíu í hvert skipti sem þú fyllir tankinn.

 

—————————————————————–

Hugsaðu vel um mótorinn þinn

Það má segja að utanborðsmótorar geta átt erfiða æfi.  Það er eðli flestra véla að vera hamingjusamastar ef þær eru notaðar í hófi en samt reglulega og í vænu umhverfi.  Utanborðsmótorar eru  oftast ekki notaðir hér á landi nema örfáa mánuði á ári, og þá oft í sjó sem gjarnan vill fylla kælivatnsganga af salti og valda kælingarvandamálum og tæringu.  Svo þegar þeim er “lagt” að hausti án nokkra varúðarráðstafana, vilja þéttingar og gúmmíhlutir þorna og harðna, salt harðnar í kælivatnskerfinu, bensín í blöndungi gufar upp og skilur eftir sig skán sem sest í nálaraugun.  Smurolía á fjórgengismótorum súrnar með tíma og notkun (eins og á öllum vélum) og missir smurhæfnina.  Og svo eru menn steinhissa á að sami mótor bara “detti ekki í gang” næsta vor!!  En þetta hljómar nú kannski verr en það þarf og nokkrar einfaldar umgengnisreglur mun stuðla að löngu og farsælu sambandi við utantborðsmótorinn þinn.  Farðu fyrst og fremst eftir leiðbeiningunum í notendahandbókinni fyrir þinn mótor, en eftirfarandi eru svona „common sense“ atriði sem geta átt við um alla utanborðsmótora:

  • Líttu yfir hann fyrir gangsetningu – svona „pre-flight“ tékk eins og flugmennirnir gera.  Sjáðu hvort séu nokkur augljós vandamál, s.s. lausir vírar eða lausar rær eða boltar.  Oft kemur smá árvekni í veg fyrir að þurfa að róa í land!
  • Athugaðu smurolíukvarðann á fjórgengismótorum og bættu við olíu ef þarf.
  • Athugaðu olíuna á neðra drifi.  Yfirleitt tvær skrúfur – ein fyrir að tappa af og ein fyrir áfyllingu.  Skoðaðu olíuna sem rennur út.  Ef hún er mjólkurlituð er leki til staðar sem mun tortíma drifinu og neyða þig til að róa í land!
  • Notaðu ferskt bensín – ekki afganginn frá árinu áður.  Bensín daprast við geymslu, bæði vegna uppgufunar rokgjarna efna og tilhneigingu til að taka í sig vatnsgufu (raka).
  • Ef þú ert með tvígengismótor, passaðu að nota rétt blöndunarhlutföll fyrir olíuna.  Farðu nákæmlega eftir fyrirmælum framleiðanda.  Flestir mótorar eru með annaðhvort 1:50 eða 1:100 hlutföll á olíu/bensíni.  Hristu mótorinn / bensíntankinn svo þetta blandist vel saman.
  • Um leið og mótorinn fer í gang, athugaðu kælivatnsbununa.  Ef engin buna, stöðvaðu mótorinn með það sama og athugaðu dæluhjólið.  Þau eru úr gúmmí og hafa takmarkaða endingu.  Ég hef það fyrir reglu að skipta um reglulega og nota þá gamla hjólið sem varahlut. Það er krítiskt að þetta sé í lagi.  Ekkert eyðileggur mótor fljótar en skortur á kælivatni.  Nema kannski skortur á smurolíu!
  • Flestar stimpilvélar hafa það sem kallað er „sweet spot“.  Þetta er það harmoniska hraðasvið þar sem vélinni líður vel; hún titrar lítið og malar ánægjulega.  Reyndu að keyra utanborðsmótorinn þinn sem mest á þessu sviði.  Hann mun þakka þér fyrir með lengri endingu og færri bilunum.
  • Þegar sjóferðin er búin og komið er í land, skolaðu mótorinn úr ferskvatni að utan og innan.  Best að gera þetta strax áður en sjórinn nær að þorna og saltkrystallar myndast.
  • Þegar mótorinn hefur þornað, er gott að pusa smá olíu – s.s. WD40 yfir mótorhausinn og aðra málmhluti. Þetta kemur í veg fyrir ryðmyndun og tæringu.  Ekki of mikið – bara smá úði er nóg.
  • Svo er gott að strjúka af plastinu og leggnum með rökum klút, og ef þú ert í sérstöku stuði er ekkert að því að bóna greyið!

Annað sem gott er að hafa í huga:

Settu ALDREI vatnskældan mótor í gang án þess að vera með kælivatn.  Hjólið í kælivatnsdælunni er úr gúmmí og notar vatnið sem smurning og kælingu.  Jafnvel nokkrar sekúndur án kælivatns getur verið nóg til að slátra dæluhjólinu.

Reyndu að geyma mótorinn þinn uppréttann.  Þetta á sérstaklega við um fjórgengismótora – sem oft eru merktir þannig að ef þarf að leggja hann láréttan niður, svo sem við flutning – er hægt að sjá hvor hliðin á að snúa niður.  Ef mótornum er snúið öfugt eða á haus, getur smurolían i sveifarhúsinu runnið framhjá stimplinum inn í brunahólfið.  Ef inntaksventill er opinn, á olían á greiða leið inn í blöndunginn og það þarf ekki nema örlitla olíu til að trufla blöndunginn og valda erfiðleikum.  Hægt er að smíða mjög einfalda standa úr timburafgöngum (2×4“) til að geyma mótorinn á.

Þegar notkun er hætt í lok sumars, eyddu nokkrum mínútum í að ganga frá mótornum fyrir vetrarhvíldina:

  • Tæmdu bensín af blöndungnum – láttu mótorinn ganga með lokað fyrir bensínið þangað til hann stöðvast.  Ef það er ekki unnt,  er yfirleitt skrúfa neðst á flotholts-skálinni til þessa.
  • Ef mótorinn er með innbyggðum bensíntanki, tæmdu hann ef þú getur.  Ekki samt snúa fjórgengismótor á haus til þessa.  Ef þú getur ekki tæmt hann, fylltu hann þá.  Ef tankurinn er skilinn eftir hálf-fullur – sérstaklega í óupphitaðu húsnæði, mun bensínið taka í sig raka úr loftinu.
  • Skiptu um smurolíu á fjórgengismótorum.  Gömul smurolía missir ekki aðeins smureiginleika sína með tímanum, hún súrnar og getur beinlínis valdið tæringu á vissum tegundum áls.
  • Fjarlægðu kertið og sprautaðu WD40 eða álíka inn um gatið.  Notaðu strá og settu smá sveigju á endann svo olían dreifist um strokkveggina.  Snúðu svo mótornum hægt nokkra hringi til að dreifa olíunni betur.  Skoðaðu kertið og stilltu gapið ef með þarf eða endurnýjaðu það. Settu smá koparsmurningu á kertis-skrúfganginn og settu það aftur í.  Ekki herða of mikið!
  • Úðaðu smá WD40 eða álíka á alla málmhluti, sérstaklega mótorhaus.  Þetta varnar ryði og tæringu.
  • Settu þunnt lag af feiti á slitfleti, svo sem á stjórnkaplatengi, bensíngjöf og innsog og annarstaðar eins og þurfa þykir.
  • Skiptu um olíu á neðra drifi.  Skoðaðu vel olíuna sem tappað er af.  Mjólkurlitur á olíu og/eða mæjónes olía gefur til kynna að vatn/sjór er að leka inn í drifið og þarf þá viðgerðar við.  Taktu einnig eftir hvort einhverjar málm-agnir leynast í olíunni.  Ef svo er, þarf að athuga það betur.
  • Strjúktu af mótornum með rökum klút, blettaðu skellur í málningu og bónaðu hann (ef þú ert þannig innstilltur)
  • Mundu að þetta er tækið sem þú kannski treystir fyrir lífi og limum.  Smá umhyggja borgar sig alltaf og sérstaklega þegar til lengri tíma er litið.

————————————————————–

 

Að kaupa notaðan utanborðsmótor

Nýir utanborðsmótorar eru dýrir.  Alveg fokdýrir – allavega þessar gömlu grónu tegundir sem við þekkjum og treystum.  Svo það er freistandi að reyna að spara smá pening og kaupa notaðan mótor.  En það er með utanborðsmótora eins og annað – það er auðvelt að kaupa köttinn í sekknum – og þegar hugsað er til þess að þetta er tæki sem maður kannski treystir fyrir lífi sínu og annarra, þá þarf að reyna að vanda valið.  Ég hef sett saman nokkur atriði sem gott er að hafa í huga þegar verið er að skoða notaða utanborðsmótora:

  • Svo þú hefur fundið notaðan mótor sem þú heldur að henti þér.  Áður en þú ferð í skoðunarferðina, gúgglaðu þessa mótortegund og reyndu að finna út hvort þessi gerð hefur einhver krónísk vandamál eða veikleika.  Það er gríðarlega mikið af efni á netinu og oftast hægt að finna upplýsingar um tilteknar tegundir.  Skoðaðu líka möguleika á að kaupa varahluti hjá umboði – hvernig er þjónustan hjá þeim?
  • Áður en þú snýrð þér að mótornum, stúderaðu seljandann.  Lítur hann (hún) út fyrir að vera karakter sem fer vel með eigur sínar? Ef þú hefur tækifæri til að sjá aðrar eigur seljanda – svo sem bíl eða heimili, hvernig lítur það út?  Þegar ég kaupi notaðar vörur finnst mér seljandinn skipta nær jafnmiklu máli og varan sjálf.  Hefur seljandinn góða og gilda ástæðu fyrir að selja – svo sem nýr mótor, bátur seldur eða brottflutningur.  Eða er seljandinn að reyna að koma sínu vandamáli yfir á nýjan eiganda?  Notaðu smá sálfræði í þetta.
  • Fyrstu kynni skipta máli.  Ef mótorinn lítur illa út að utan, er ekki ólíklegt að innra ástand sé ekki betra.
  • Hefur mótorinn verið notaður á ferskvatni eða sjó?  Ef á sjó, spurðu seljandann hvort hann hafi rennt ferskvatni í gegnum kerfið að lokinni sjóferð.  En sennilega mun hann bara segja “já” hvort sem hann hefur gert það eða ekki…..
  • Taktu húddið af og skoðaðu almennt ástand mótorsins.  Eru einhver merki um olíu eða bensínleka?  Er mótorinn með olíu/bensín smit miðað við aldur og notkun eða er hann tandurhreinn eins og hann hafi nýverið gufuþveginn?  Ef svo, er verið að reyna að fela eitthvað?  Einhver merki um að mótorinn hafi ofhitnað, svo sem dökk eða flögnuð málning á heddinu?
  • Ef mótorinn er með handstarti, togaðu hægt í það og findu hvernig mótorinn þjappar.  Það ætti að vera töluverð mótstaða á þjöppuslaginu.
  • Taktu kerti(n) úr og skoðaðu það.   Ljósbrún-grár litur er góður, dökkur litur með carbon olíusmiti er merki um slit í stimpilhringjum, stimpli eða strokk.  Smá olíusmit á tvígengiskerti er þó eðlilegt.
  • Þjöppumælar eru ekki dýrir og eru góð fjárfesting ef þú kaupir notaðar vélar eða bíla.  Ef þú ert með svoleiðis græju, skrúfaðu hana í, opnaðu bensíngjöfina í botn og startaðu rösklega.  Ef mótorinn er með fleiri en einn strokk, taktu kertaþráðinn af hinu kertinu svo það sé engin hætta á að hann fari í gang.  Þjappa á hverjum strokki ætti að vera mjög svipuð og alltaf innan við 10% mismunur.  Þjappa er mismunandi á mótorum og best er að vera búinn að skoða á netinu hvað normal þjappa er fyrir þennan mótor.  100-140 psi er algengt og ef það er fyrir neðan 80 psi er eitthvað athugavert og góðar líkur á að þurfi að endurbyggja mótorhausinn og það er dýrt.
  • Ef þetta er fjórgengismótor, athugaðu olíukvarðann.  Olíumagnið ætti að vera rétt og olían hvorki of gömul eða ný.  Mjög dökk olía þýðir að ekki hefur verið skipt um hana lengi. Og það er alltaf frekar grunsamlegt þegar seljandi skiptir um olíu á mótor sem á að fara að selja nema gild og góð ástæða sé til.
  • Skoðaðu neðra drif og tappaðu af smá olíu.  Hún ætti að vera hrein og laus við svarf.  Mjólkurlitað majones er merki um leka og að vatn/sjór hefur komist í olíuna.  Skoðaðu ástand á skrúfu og hæl.  Skemmdir þar geta verið vísbending að mótorinn hafi tekið niðri og skyndileg stöðvun á skrúfu getur valdið innri skemmdum á drifi og mótorheddi.
  • Settu mótorinn í gír og skoðaðu hlaupið í skrúfunni.  Nokkra millimetra hlaup er normalt, en ef þú getur hreyft skrúfuna um nokkrar gráður, er komið slit í gírana.
  • Láttu seljandann setja mótorinn í gang.  Ef hann ætlar að gera það án kælivatns og segir að það sé allt í lagi í smá stund – hlauptu í burtu sem fætur toga.  Þessi einstaklingur ætti ekki að fá að koma nálægt utanborðsmótorum!
  • Er auðvelt að starta honum – líka þegar hann er kaldur á innsogi.  Gengur hann góðan og jafnan hægagang? Fyrstu merki um slit á sveifarhúsþéttingum á tvígengismótorum er ójafn hægagangur.  Svarar hann inngjöf fljótt og vel?  Fjórgengismótorar eiga ekki að reykja sem neinu nemur, en auðvitað gera tvígengismótorar svo.  Er góður þrýstingur á kælivatnsbununni?  Hljómar hann eðlilega í lausagangi og við inngjöf?
  • Settu hann í gír – bæði áfram og afturábak.  Gengur hann auðveldlega og hljóðlega í gírana?  Smá „klunk“ hljóð er normalt en ekki mikið meira en það.  Svarar hann inngjöf vel í gír?
  • Taktu nokkur skref afturábak og virtu græjuna vel fyrir þér.  Þetta er svolítið eins og að eignast nýja vinkonu.  Þið þurfið að treysta hverju öðru og láta ykkur koma vel saman – vonandi í langan tima !!
  • Og nú ert það þú sem ákveður framhaldið og hvort þú gerir tilboð.  Hafðu í huga að slit á mótorhaus (lág þjappa) og slit í drifi (mikið hlaup í skrúfunni) eru dýrar viðgerðir og sennilega ekki þess virði að láta verkstæði framkvæma þær – nema að þú fáir mótorinn á gjafverði.  Ef þú getur gert þetta sjálfur og gert það vel (ekkert fúsk gúdderað hér) getur þetta borgað sig, en skoðaðu verð á varahlutum fyrst.  Þeir eru oft dýrari nýir en maður heldur og það er alltaf álitamál hvort notaðir partar eru góð lausn – sérstaklega partar sem slitna við eðlilega notkun, svo sem gírar og mótorpartar.

Þetta er nú svona það helsta sem ég skoða þegar ég kaupi mótora.  Og þó að það sé margt að varast og maður hafi einstöku sinnum brennt sig, þá er þetta engin stjörnufræði.  Og eins og maðurinn sagði – sem gott er að hafa í huga – í lauslegri þýðingu:  Utanborðsmótorar deyja venjulega ekki eðlilegum dauðdaga – eigendur þeirra myrða þá !!

Þetta greinarkorn sem að er algerlega heimatilbúið og byggir á eigin reynslu, endurspeglar aðeins skoðanir höfundar og ætti á engan hátt að skoðast sem einhver viskubrunnur um viðfangsefnið.

vörur

Vefverslun okkar er stútfull af  bátavörur á hagstæðu verði.  Hjá okkur finnur þú einnig 12 volta rafmagnsvörur og LED ljós sem nýtast vel í húsbíla og hjólhýsi.  Einnig gott úrval af þilfarspörtum úr ryðfríu stáli.  

Vefverslunin opinn 24/7

Bátavörur hafa nú flutt sig að

Lyngás, 671 Kópasker

Sendum hvert sem er

Við sendum hvert á land sem er og kappkostum að senda vörur út daginn eftir að pöntun er móttekin.

Greiðslumöguleikar

Við bjóðum upp á kortagreiðslur og millifærslu fyrir heimsendar vörur.  Einnig er hægt að staðgreiða ef vara er sótt.